Réttur til réttargæslumanns. Þjóna skilyrðin vilja löggjafans?

Réttindi brotaþola hafa verið mikið í umræðunni og þá einkum hvernig unnt er að bæta stöðu og réttindi þeirra. Miklar umbætur hafa átt sér stað í þágu brotaþola og vega þar þungt ákvæði laga nr. 61/2022 um breytingu á lögum um meðferð sakamála, nr. 88/2008 (bætt réttarstaða brotaþola, fatlaðs fólks og aðstandenda). Með lögunum var réttarstaða brotaþola bætt til muna en skilyrðin fyrir því að brotaþoli fái tilnefndan eða skipaðan réttargæslumann sér til aðstoðar eru óbreytt þrátt fyrir aukið vægi réttar­gæslu­manna. Lögin setja því áfram sömu skilyrði fyrir skipun réttargæslumanna. Þörf er á að endurskoða þessi skilyrði og þá einkum hvað varðar þolendur ofbeldis í nánum samböndum.

Fjallað verður um hverjir falla undir hugtakið brotaþoli og stöðu og hlutverk réttar­gæslu­­manns. Ekki verður farið sérstaklega yfir réttindi brotaþola að öðru leyti en hvað varðar rétt þeirra til réttargæslumanns. Jafnframt verður aðeins fjallað um hlutverk réttargæslu­manns að því leyti sem nauðsynlegt er til að varpa ljósi á mikilvægi réttar brotaþola til þess að njóta liðsinnis réttargæslumanns. Ekki er því um tæmandi talningu að ræða á réttindum brotaþola eða hlutverki og réttindum réttargæslumanns þar sem það er efni í aðra og umfangsmeiri grein. Áherslan er því lögð á að svara því hvaða skilyrði brotaþolar þurfa að uppfylla til að eiga rétt á liðsinni réttargæslumanns.

Varpað verður ljósi á það hverjir geta fengið tilnefndan eða skipaðan réttargæslumann því að ekki eiga allir brotaþolar möguleika eða rétt á að fá réttargæslumann til að gæta hagsmuna sinna. Farið verður yfir þau skilyrði sem brotaþolar þurfa að uppfylla til að fá réttargæslumann, en skilyrðin eru mismunandi eftir því hvers eðlis brot er og geta einnig verið mismunandi eftir aldri brotaþola. Fjallað verður um þau skilyrði sem sett eru í lögum varðandi tilnefningu og skipun réttargæslumanns og svo dómaframkvæmd hvað þetta varðar til að varpa ljósi á það hvernig dómstólar hafa túlkað skilyrði laganna fyrir þessum réttindum brotaþola. Niðurstöður verða því næst dregnar saman og lagðar fram tillögur að úrbótum í þágu brotaþola og þá einkum þolenda ofbeldis í nánum samböndum.

 

  1. Brotaþoli

Brotaþoli er sá aðili sem afbrot beinlínis bitnar á eða misgert er við.[1] Aðrir verða ekki taldir brotaþolar í skilningi laga en þeir sem afbrot hefur beinlínis beinst að. Brotaþoli vísar til þess að viðkomandi aðili sé þolandi brots sem þykir ekki alls kostar heppilegt því að ekki er alltaf staðfest að viðkomandi hafi orðið fyrir misgerð af völdum brots.[2] Í raun er hugtakið notað í víðtækri merkingu í lögum þar sem það nær ekki aðeins til þeirra sem sannað þykir að hafi orðið fyrir broti heldur einnig til þeirra sem telja sig hafa orðið fyrir broti eða eru af öðrum taldir hafa orðið fyrir broti, án þess að sönnur hafi verið færðar á það fyrir dómi.[3] Brotaþoli er því notað jöfnum höndum yfir þá sem ljóst er að hafi orðið fyrir broti og þá sem taldir eru hafa orðið fyrir broti eða kveðjast hafa orðið fyrir broti og því ekki rétt að tala um meintan brotaþola þar sem skilgreining hugtaksins nær bæði yfir staðfest og óstaðfest brot.

Hugtakið brotaþoli var fyrst tekið upp í þágildandi lögum um meðferð opinberra mála nr. 91/1991.[4] Hugtakið var þá aðeins notað á einum stað í lögunum en ekki skilgreint sérstak­lega. Með lögum nr. 36/1999 um breytingu á lögum um meðferð opinberra mála, nr. 19 frá 26. mars 1991, með síðari breytingum, var réttarstaða brotaþola styrkt þegar kafla um brotaþola og réttargæslumann var bætt við lögin, en hugtakið brotaþoli var þó ekki skýrt eða skilgreint sérstaklega. Hæstiréttur lagði það til grundvallar að brotaþoli skv. lögum nr. 91/1991 væri sá sem nyti refsiverndar samkvæmt lögum.[5] Skilgrein­ing hugtaks­ins kom ekki fram í lögum fyrr en við gildistöku laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 (sml.). Þar sem rík réttaráhrif tengjast hugtakinu brotaþoli þótti rétt að skilgreina hugtakið í lögun­um[6] og er það gert í 1. mgr. 39. gr. laganna:

Brotaþoli er sá maður sem kveðst hafa orðið fyrir misgerð af völdum afbrots. Enn fremur sá maður sem telur sig hafa orðið fyrir fjárhagslegu tjóni af refsiverðri háttsemi, enda hafi hún beinst að honum sjálfum, eða lögaðili sem sagður er hafa beðið slíkt tjón.

 

  1. Réttargæslumenn og hlutverk þeirra

Réttargæslumaður er málsvari brotaþola í sakamáli.[7] Heimild til tilnefningar og skipunar réttargæslumanns var fyrst lögfest hér á landi með lögum nr. 36/1999, en brotaþolar í hinum norðurlöndunum nutu þegar þessara réttinda og var Ísland því síðast norðurlandanna til að lögfesta þennan rétt brotaþola til aðstoðar lögmanns á ábyrgð ríkisins.[8]

Réttargæslumaður skal tilnefndur eða skipaður úr hópi lögmanna skv. 44. gr. sml., sbr. 33. gr. sömu laga. Hlutverk réttar­gæslu­­manns er skv. 1. mgr. 45. gr. sml. að gæta hagsmuna brotaþola og veita honum aðstoð í málinu, þar á meðal við að setja fram einkaréttarkröfur fyrir hans hönd. Frekar er ekki fjallað um hlutverk réttargæslumanna í lögunum, enda þótt hlutverk og réttindi réttargæslumanna væru aukin með lögum nr. 61/2022, um breytingu á lögum um meðferð sakamála, nr. 88/2008 (bætt réttarstaða brotaþola, fatlaðs fólks og aðstandenda).[9]

Fyrir gildistöku laga nr. 61/2022 hafði réttargæslumaður fyrst og fremst það hlutverk á rannsóknarstigi að vera tengiliður brotaþola við lögreglu og liðsinna honum við skýrslu­töku og í samskiptum við lögreglu vegna rannsóknar málsins. Þá var réttargæslu­mað­ur jafnframt málsvari brotaþola við rannsókn máls og sá, eins og áður hefur verið nefnt, um framsetningu einkaréttarkrafna fyrir hönd brotaþola. Þá veitti réttar­gæslumaður brotaþola liðsinni við að kæra ákvarðanir lögreglu eða ákæruvalds, s.s. um að hætta rannsókn máls eða niðurfellingu máls að öðru leyti, sbr. 6. mgr. 52. gr. sml. Fyrir dómi var hlutverk réttar­gæslu­manns fyrst og fremst að fylgja eftir bótakröfu brota­þola, ef slík krafa lá fyrir í málinu, og gæta hagsmuna hans, t.d. varðandi kröfu um að ákærði viki á meðan brotaþoli gæfi skýrslu fyrir dómi eða kröfu um að þinghöld væru lokuð og gæta þá hagsmuna brotaþola því að í þeim tilfellum hafði brotaþoli ekki rétt á að vera viðstaddur þinghöld þar sem hann er ekki aðili máls. Réttindi réttargæslumanns voru bundin því að vera viðstaddur öll þing­höld í málinu og tjá sig um einkaréttarkröfu brotaþola, en ekki beina spurningum til þeirra sem gáfu skýrslu fyrir dómi, þ.e. annarra en þess brotaþola er hann var skipaður fyrir. Réttargæslumaður gat þó beint því til fulltrúa ákæruvalds að beina spurningum til ákærða eða vitna. Réttargæslumaður gegndi því eins konar aukahlutverki í málinu í samanburði við fulltrúa ákæruvalds og verjanda.[10]

Eftir gildistöku laga nr. 61/2022 var brotaþolum veitt aukin aðkoma að málum. Þeir  hafa enn stöðu vitnis og eru ekki aðilar máls en hafa á hinn bóginn sterkari stöðu en önnur vitni. Brotaþolum er nú heimilt að vera viðstaddir lokuð þinghöld eftir að þeir hafa gefið skýrslu fyrir dómi, skv. 3. mgr. 10. gr. sml., nema dómari telji sérstakar ástæður mæla gegn því. Hluti af sterkari stöðu brotaþola og aukinni aðkomu felst í auknu hlutverki og heimildum réttargæslu­manna. Þannig eiga réttargæslumenn nú sama rétt til afhend­ing­ar gagna og verjendur, nema sérstakar aðstæður mæli gegn því, en brotaþolar njóta sama réttar til aðgangs að gögnum ef þeir njóta ekki aðstoðar réttargæslumanns, sbr. 47. gr. sml. Þá getur réttar­gæslu­maður beint því til lögreglu að brotaþoli, sakborningur eða vitni séu spurð um tiltekin atriði á rannsóknarstigi. Fyrir dómi getur réttargæslumaður lagt fyrir spurningar í tengslum við einkaréttarkröfur og jafnframt stuttar og gagnorðar spurn­ingar fyrir þá sem gefa skýrslu fyrir dómi um atriði sem varða annað en einkaréttarkröfur, sbr. 46. gr. sml. Þessi réttur er bundinn við réttargæslumann eða lögmann brotaþola og hefur brotaþoli sjálfur því ekki þennan rétt.[11] Með sterkari stöðu og réttindum brotaþola til aðkomu að máli vegna brota gegn þeim má ætla að brotaþolar hafi jafnframt ríkari þörf fyrir löglærðan málsvara til að liðsinna þeim við rekstur málsins, en skilyrðum fyrir tilnefningu eða skipun réttargæslu­manns var ekki breytt, nema aðeins hvað varðar rétt til þess að fá skipaðan réttar­gæslu­mann fyrir æðri dómi, sbr. 2. og 3. mgr. 42. gr. sml.

Brotaþoli geti þó ráðið á sinn kostnað lögmann til að gæta hagsmuna sinna og hefur sá lögmaður sömu réttindi og skyldur og réttargæslumaður eftir því sem við á, sbr. 43. gr. sml. Kostnaður vegna vinnu réttargæslumanns fellur undir sakarkostnað og munar það því miklu fyrir fjárhagslega áhættu brotaþola hvort hann fær tilnefndan eða skipaðan réttargæslumann eða hvort hann þarf að ráða lögmann á eigin kostnað en ljóst er að ekki hafa allir brotaþolar efni á að ráða sér lögmann á eigin kostnað.

  

  1. Skilyrði fyrir tilnefningu og skipun réttargæslumanns

Brotaþolar geta átt rétt á að fá réttargæslumann sér til aðstoðar. Það eiga þó ekki allir brotaþolar rétt á að njóta liðsinnis réttargæslumanns því að ákveðin skilyrði eru fyrir tilnefningu og skipun réttargæslumanns, sbr. 41. og 42. gr. sml.

3.1. Þróun skilyrða fyrir tilnefningu og skipun réttargæslumanns

Með áðurnefndum lögum nr. 36/1999, var lögfestur réttur brotaþola til þess að fá tilnefnd­an eða skipaðan réttargæslumann til að aðstoða brotaþola og gæta hagsmuna hans í máli vegna brots eða brota gagnvart honum, að ákveðnum skilyrðum uppfyllt­um.[12]

Í frumvarpi því sem varð að lögum nr. 36/1999 var upphaflega mælt fyrir um skyldu lögreglu til að tilnefna brotaþola réttargæslumann ef rannsókn máls beindist að broti gegn XXII. kafla almennra hegningar­laga og brotaþoli hefði ekki náð 18 ára aldri við upphaf rann­sókn­ar. Þá var jafnframt mælt fyrir um skyldu lögreglu til að tilnefna brotaþola réttargæslu­mann ef rannsókn beindist að broti á XXII., XXIII. eða XXIV. kafla almennra hegningarlaga eða 251.-253. gr. laganna og brotaþoli eða lögráðamaður hans óskaði þess og ef ætla mætti að brotaþoli hefði orðið fyrir verulegu tjóni á líkama eða andlegu heilbrigði af völdum brotsins og hefði að mati lögreglu þörf fyrir sérstaka aðstoð réttargæslumanns til þess að gæta hagsmuna sinna í málinu. Þá var lögreglu jafnframt heimilað að tilnefna brotaþola réttargæslumann án beiðnar brotaþola eða lögráðamanns ef skilyrði voru fyrir tilnefningu og brotaþoli væri sérstaklega sljór eða skilningslítill. Þá var jafnframt mælt fyrir um að ef lögregla léti hjá líða að tilnefna brotaþola réttargæslumann gæti hann eða lögráða­maður hans leitað atbeina dómara og óskað skipunar réttargæslu­manns. Þegar skilyrði væru til þess að tilnefna réttar­gæslu­mann skyldi dómari skipa brotaþola réttar­gæslu­mann þegar mál hefur verið höfðað.[13]

Þegar frumvarpið var lagt fram hafði Neyðarmóttaka vegna nauðgunar veitt þolendum sem þangað leituðu kost á aðstoð lögmanns án endur­gjalds.[14] Slík þjónusta hafði þá verið í boði í fimm ár og töldu lögmenn sem þar störfuðu við hagsmunagæslu fyrir þolend­ur nauðsyn­legt að tryggja öllum þolendum kynferðisbrota, annarra en blygð­unar­semisbrota, skýlausan rétt til aðstoðar réttargæslu­manns. Lögmennirnir bentu á það í umsögn sinni um frumvarpið að erfitt væri að koma auga á þau tilvik sem ekki uppfylltu skilyrði um að brotaþoli hefði orðið fyrir verulega tjóni á líkama eða andlegu heilbrigði og þyrfti sérstaka aðstoð réttargæslumanns þegar um væri að ræða brot á 194.-199. gr. almennra hegning­ar­laga og lögðu því fram tillögu að breytingu á ákvæði frumvarpsins, sem veitti þolendum þeirra brota skýlausan rétt til réttargæslu­manns ef þolandi óskaði þess.[15] Þá velti Barna­verndarstofa því upp hvort ekki væri rétt að skyldan til skipunar réttargæslumanns fyrir þolendur næði til allra barna sem væru þolendur ofbeldisbrota, en ekki aðeins þolenda kynferðisbrota.[16]

Við meðferð frumvarpsins í þinginu lagði allsherjarnefnd til í nefndaráliti sínu að tekin yrðu af öll tvímæli um að lögreglu væri ávallt skylt að tilnefna brotaþola réttargæslu­mann ef brotaþoli óskaði þess og rannsókn beindist að kynferðisbroti.[17] Nefndin lagði því fram tillögu að breytingu á ákvæði frum­varps­­ins hvað þetta varðar.[18] Sú breyting var tekin upp í frumvarpið eftir aðra umræðu í þinginu[19] og var það samþykkt á Alþingi 10. mars 1999.[20]

Skilyrði fyrir skipun réttargæslumanns voru óbreytt fram að gildistöku laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 sem tóku við af lögum um meðferð opinberra mála nr. 19/1991. Í upphaflegu frumvarpi að lögum nr. 88/2008 var ekki gert ráð fyrir breytingum á skilyrðum fyrir tilnefningu eða skipun réttargæslumanns.[21] Gerðar voru athugasemdir við þetta í umsögn­um um frumvarpið og benti Barnaverndarstofa á að æskilegt væri að öll börn sem væru þolendur ofbeldisbrota ættu að eiga rétt til aðstoðar réttargæslu­manns.[22] Ekki var litið til þessarar athugasemdar, en allsherjarnefnd lagði til að skilyrðum fyrir tilnefningu og skipun réttargæslumanns yrði breytt til að styrkja enn frekar réttarstöðu þolenda heimilis­ofbeldis, en skilyrðið um að brotaþoli hefði þörf fyrir sérstaka aðstoð réttargæslumanns til að gæta hagsmuna sinna í málinu var þó jafnframt áréttað í nefndaráliti með breytingar­tillögunni. Nefndin lagði til að bætt yrði við tilvikum þar sem brot er framið af aðila sem er nákominn brotaþola við upptalningu á þeim tilfellum sem skylt væri að tilnefna brotaþola réttargæslumann.[23] Nefndin lagði til eftirfarandi breytingu á 2. mgr. 41. gr. frumvarpsins:

Skylt er lögreglu endranær eftir ósk brotaþola að tilnefna honum réttar­gæslu­­mann ef rannsókn beinist að broti á XXIII. eða XXIV. kafla almennra hegningar­laga eða 251.-253. gr. laganna og ætla má að brotaþoli hafi orðið fyrir verulegu tjóni á líkama eða andlegu heilbrigði af völdum brotsins eða að brotið hafi verið gegn honum af einhverj­um sem er honum nákominn. Það er skilyrði fyrir tilnefningu réttargæslu­manns samkvæmt þessari málsgrein að brotaþoli hafi að mati lögreglu þörf fyrir sérstaka aðstoð réttargæslumanns til þess að gæta hagsmuna sinna í málinu.[24]

Breytingartillagan var tekin upp í frumvarpið eftir 2. umræðu,[25] og var það samþykkt á Alþingi 30. maí 2008.[26] Skilyrðin hafa verið óbreytt frá þeim tíma, að því undan­skildu að með lögum nr. 61/2022 bættist við heimild til að tilnefna fyrirsvarsmanni látins einstaklings réttargæslumann.[27] Þá var réttur brota­þola til skipunar réttargæslumanns við málsmeðferð fyrir æðri dómi styrkt með því að auka við heimildir til skipunar réttar­gæslu­manns óháð því hvort dómur hefði verið lagður á einkaréttarkröfu brotaþola[28] og er það vel, en skilyrðum fyrir tilnefningu eða skipun var ekki breytt að öðru leyti.

Enginn umsagnaraðila málsins benti á mikilvægi þess að breyta grunnskilyrðum fyrir tilnefningu og skipun réttargæslumanns. Ástæða þess gæti verið sú að grunninn að lögum nr. 61/2022 má rekja annars vegar til greinargerðar Hildar Fjólu Antons­dóttur, Réttlát máls­með­­ferð með tilliti til þolenda kynferðisbrota, og hins vegar til Skýrslu starfshóps um með­ferð kynferðisbrotamála þegar um fatlaða sakborninga og/eða brotaþola er að ræða.[29] Báðar þessar skýrslur fjalla um þolendur kynferðis­brota, en réttur þeirra til réttar­gæslu­manns er vel tryggður í lögum. Það er staða þolenda ofbeldis í nánum samböndum hins vegar ekki. Þrátt fyrir að við setningu laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 hafi skilyrðunum verið breytt til að styrkja stöðu þessara brotaþola.

3.2. Túlkun dómstóla á skilyrðum fyrir tilnefningu og skipun réttargæslumanns

Réttur þolenda kynferðisbrota til réttargæslumanns er skýr skv. 1. mgr. 41. sml. hvort sem um er að ræða fullorðna eða börn og hefur því ekki leikið vafi á um rétt til tilnefningar eða skipunar réttargæslu­manns í þeim tilfellum. Það virðist hins vegar nokkuð matskennt hvernig dómstólar meta skilyrði fyrir skipun réttar­gæslu­manns skv. 2. mgr. 41. gr. sml.

Skilyrðið um að um sé að ræða brot á XXIII. eða XXIV. kafla almennra hegningarlaga eða 251.–253. gr. laganna er skýrt. Engu að síður sést í dómaframkvæmd að dómstólar hafa í einhverjum tilfellum skipað réttargæslumenn þó að skilyrðið sé ekki uppfyllt.[30] Skilyrðið er ekki matskennt og þykir því ekki ástæða til að fjalla um það sérstaklega. Hin tvö skilyrðin, þ.e. að ætla megi að brotaþoli hafi orðið fyrir verulegu tjóni á líkama eða andlegu heilbrigði af völdum brotsins eða að brotið hafi verið gegn honum af einhverjum sem er honum nákominn og að brotaþoli hafi þörf fyrir sérstaka aðstoð réttargæslumanns til þess að gæta hagsmuna sinna í málinu, eru þó matskennd og hefur helst reynt á þau í dómaframkvæmd.[31]

Alla jafna eru gerðar ríkar kröfur til þess að tjón á líkamlegu eða andlegu heilbrigði sé sannað og er algengt að skipun réttargæslumanns sé hafnað þar sem þetta skilyrði þykir ekki uppfyllt. Við mat á því hvort skilyrðið teljist uppfyllt er eðlilegt að líta til þess hvort áverkar séu meiri háttar. Þannig að ef um líkamsárás er að ræða má ætla að árásin þurfi að minnsta kosti að falla undir 218. gr. almennra hegningarlaga. Erfiðara er þó að leggja mat á alvarleika tjóns á andlegu heilbrigði en það dugir að um annað hvort sé að ræða, þ.e. verulegt tjóni á líkama eða andlegu heilbrigði.[32] Það sést vel á þeim úrskurðum sem eru aðgengilegir í dómasafni hversu strangar kröfur eru gerðar hvað þetta varðar.

Í L 22. mars 2019 (205/2019) var ekki fallist á skipun réttargæslu­manns. Um var að ræða meiri háttar líkamsárás og byggði brotaþoli kröfu sína um skipun réttargæslu­manns á því að hann hefði orðið fyrir alvarlegum áverkum og bæri auk þess andleg mein eftir árásina og hefði verið metinn 10% öryrki. Þá væri hann jafnframt í viðkvæmri stöðu. Héraðsdómur kvað þó í úrskurði sínum að samkvæmt gögn­um málsins væri ljóst að brotaþoli hefði ekki orðið fyrir verulegu tjóni á lík­ama eða andlegu heilbrigði; það þyrfti að skýra þröngt og brotaþoli yrði að hafa þörf fyrir sérstaka aðstoð réttargæslu­manns til að gæta hagsmuna sinna í málinu. Héraðsdómari taldi hvorugt skilyrðið uppfyllt og hafnaði kröfu um skipun réttargæslumanns. Landsréttur staðfesti þá niðurstöðu með vísan til þess að fyrirliggjandi læknisfræðileg gögn bæru ekki með sér að brotaþoli hefði orðið fyrir svo verulegu tjóni á líkama eða andlegu heilbrigði að skilyrði væru fyrir skipun réttargæslu­manns.

Sambærileg niðurstaða var í L 11. apríl 2018 (337/2018) þar sem Landsréttur hafnaði kröfu brotaþola um skipun réttargæslumanns á þeim grundvelli að læknisfræðileg gögn bæru ekki með sér að brotaþoli hefði orðið fyrir svo verulegu tjóni á líkama eða andlegu heilbrigði að skylt væri að tilnefna viðkomandi réttargæslumann. Í málinu lágu þó fyrir tvö lækn­is­vottorð, annað frá slysa- og bráðadeild þar sem fram kom að brotaþoli hefði við árásina m.a. fengið heilamar á yfirborði vinstra heilahvels og hitt frá lækni þar sem farið var yfir fylgikvilla árásarinnar sem fólust í andlegri vanlíðan, vanda með skammtímaminni, verkjum, skertu langtímaminni o.fl. Brotið var heimfært undir 2. mgr. 218. gr. hgl. [33], þ.e. meiri­ hátt­ar líkamsárás. Þrátt fyrir þetta töldu dómarar, bæði í héraði og Landsrétti, að ekki lægju fyrir gögn sem bæru með sér að brotaþoli hefði orðið fyrir svo verulegu tjóni á líkama eða andlegu heilbrigði að skilyrði væru fyrir skipun réttargæslumanns.[34]

Ljóst er samkvæmt áðurgreindum dómum að verulega strangar kröfur eru gerðar. Dæmi eru þó um annað. Í H 10. febrúar 2014 (74/2014) lagði Hæstiréttur það fyrir héraðsdómara að skipa brotaþola réttargæslumann þar sem sú háttsemi ákærða að ráðast með ofbeldi að brotaþola með því að taka um höfuð hans, maka og troða saur í andlit hans og munn og því næst slá hann tvisvar til þrisvar í höfuð og líkama þótti til þess fallin að valda verulegu tjóni á andlegu heilbrigði brotaþola. Í málinu lágu fyrir tvö læknisvottorð þar sem fram kom að brotaþoli hefði eftir lýst atvik verið með áverka á efri vör sem hafði verið bólgin, verki í brjóstkassa og tognun í hægri öxl, en engin gögn lágu fyrir um að brotaþoli hefði orðið fyrir andlegu tjóni af völdum þeirrar háttsemi sem ákærða var gefin að sök. Hæstiréttur mat það þó svo að brotin væru til þess fallin að valda verulegu tjóni á andlegu heilbrigði brotaþola og skilyrði væru því til þess að skipa brotaþola réttargæslumann.

Það er ljóst að dómstólar meta skilyrðin með misjöfnum hætti þar sem heilaskaði og minnis­truflanir í kjölfar meiri háttar líkamsárásar, sem hvort tveggja er staðfest með vott­orð­­um tveggja lækna, þótti ekki uppfylla skilyrði um verulegt tjón á líkama eða andlegu heilbrigði. Á hinn bóginn þótti minni háttar árás uppfylla skilyrðið þar sem Hæstiréttur mat það svo að árásin væri til þess fallin að valda tjóni á andlegu heilbrigði, þó engin læknisfræðileg gögn lægju til grundvallar um andlega heilsu brota­þola í kjölfar árásarinnar.

Eftir gildistöku sml. þarf ekki að uppfylla skilyrðið um verulegt tjón á andlegu eða líkamlegu heilbrigði ef brot er framið af einhverjum sem er nákominn brotaþola. Það þýðir að ef gerandi er nákominn brotaþola þá þarf brotaþoli ekki að sýna fram á að hann hafi orðið fyrir verulegu tjóni á andlegu eða líkamlegu heilbrigði til að uppfylla skilyrði fyrir skipun réttargæslumanns. Þessari breytingu var, eins og áður hefur verið nefnt, ætlað að styrkja stöðu þolenda ofbeldis í nánum samböndum. Nokkur dæmi eru um að brotaþola sé neitað um skipun réttargæslumanns þegar um er að ræða brot í nánu sambandi á þeim grundvelli að ekki liggi fyrir að brotaþoli hafi orðið fyrir verulegu tjóni á líkamlegu eða andlegu heilbrigði. Sá möguleiki er þó fyrir hendi að dómstólar vísi til þess að ekki liggi fyrir að brotaþoli hafi orðið fyrir verulegu tjóni á líkamlegu eða andlegu heilbrigði til að rökstyðja að brotaþoli hafi ekki þörf fyrir sérstaka aðstoð réttargæslumanns, en það kemur þó ekki skýrt fram.

Í H 8. júlí 2014 (468/2014) var kröfu brotaþola um skipun réttargæslumanns hafnað. Í forsendum var vísað til þess að ekki lægju fyrir læknisfræði­leg gögn er sýndu fram á að brotaþoli hefði orðið fyrir verulegu tjóni á líkama eða andlegu heilbrigði, sambúð aðila hefði verið lokið þegar meint brot átti sér stað og bótakrafa lægi fyrir í málinu og brotaþoli nyti liðsinnis lögmanns við að fylgja þeirri kröfu eftir og því hefði hann ekki þörf fyrir sérstaka aðstoð réttargæslumanns. Ljóst er þó að ef aðilar eru nákomnir er ekki þörf á að sýna fram á að brotaþoli hafi orðið fyrir verulegu tjóni á andlegu eða líkamlegu heilbrigði. Þó svo að sambúð aðila hafi verið lokið áður en meint brot átti sér stað verður að telja aðila nákomna, en ætla má að nákominn skv. 2. mgr. 41. gr. sml. nái þar yfir sömu aðila og eru taldir upp í 218. gr. b hgl., en það ákvæði tekur til núverandi sem og fyrrverandi maka eða sambúðar­aðila.[35] Því ætti að vera ljóst að ekki reynir á skilyrðið um að ætla megi að brotaþoli hafi orðið fyrir verulegu tjóni á líkamlegu eða andlegu heilbrigði, en eftir stendur að brotaþoli þótti ekki hafa þörf fyrir sérstaka aðstoð réttargæslu­manns.

Í L 24. janúar 2019 (49/2019) hafnaði héraðsdómur kröfu brotaþola um skipun réttar­gæslumanns þrátt fyrir að ljóst væri að brotaþoli og ákærði væru nákomin, þar sem ekki hefði verið sýnt fram á að brotaþoli hefði þörf fyrir sérstaka aðstoð réttargæslu­manns og brotaþoli nyti þegar liðsinnis lögmanns við að halda uppi bótakröfu sinni. Landsréttur hafnaði kröfunni á þeim grundvelli að læknisfræðileg gögn er lægju fyrir í málinu bæru ekki með sér að brotaþoli hefði orðið fyrir svo verulegu tjóni á líkama eða andlegu heilbrigði af völdum meints brots að skylt væri að tilnefna brotaþola réttar­gæslu­mann og með vísan til þess og að öðru leyti til forsendna hins kærða úrskurðar var kröfunni hafnað. Þessi viðbótar­rökstuðningur Landsréttar vekur upp spurningar um það hvort Landsréttur taldi aðila ekki nákomna eða hvort Landsréttur liti svo á að þrátt fyrir að aðilar væru nákomnir þá þyrfti skilyrðið um verulegt tjón á líkama eða andlegu heilbrigði jafnframt að vera uppfyllt.

Í dómasafni er aðeins að finna þrjá dóma þar sem fallist er á skipun réttargæslumanns fyrir þolanda ofbeldis í nánu sambandi, þar af féll einn þeirra fyrir gildistöku sml. en það er H 2005:1795 (287/2005). Í því máli hafði lögregla neitað að tilnefna brotaþola réttar­gæslu­­mann og leitaði brotaþoli þá atbeina dómstóla og óskaði eftir því að sér yrði skip­aður réttargæslumaður. Héraðsdómur hafnaði kröfu brotaþola um skipun réttargæslu­manns á þeim grundvelli að þrátt fyrir að málsatvik bentu til þess að brotaþoli hefði þörf fyrir sérstaka aðstoð réttargæslumanns við rannsókn málsins þá yrði ekki séð að brotaþoli hefði orðið fyrir verulegu tjóni á líkama eða andlegu heilbrigði af völdum brotsins og því væru ekki skilyrði fyrir skipun réttargæslumanns þar sem uppfylla þyrfti bæði skilyrðin. Hæstiréttur komst að annarri niðurstöðu og taldi að síendurtekið ofbeldi í nánu sambandi væri til þess fallið að valda þeim sem fyrir því yrði verulegu tjóni á andlegu heilbrigði og taldi þar með bæði skilyrðin uppfyllt og lagði fyrir héraðsdómara að skipa brotaþola réttargæslumann.

Í L 10. júní 2021 (377/2021) hafði héraðsdómur hafnað kröfu brotaþola um skipun réttargæslumanns. Læknisfræðileg gögn málsins báru með sér að brota­þoli hefði orðið fyrir verulegu heilsutjóni. Þá lá jafnframt fyrir að ein hinna ákærðu í málinu var barnsmóðir brotaþola. Héraðsdómur taldi þó ekki að sýnt væri fram á að brotaþoli hefði sérstaka þörf fyrir aðstoð réttargæslumanns þar sem ekki höfðu verið lögð fram gögn eða vottorð um ástand brotaþola, sem sýndi fram á að brotaþoli hefði þörf fyrir sérstaka aðstoð réttar­gæslu­manns. Auk þess nyti brotaþoli þegar liðsinnis lögmanns við að halda uppi bóta­kröfu sinni og þar af leiðandi væru skilyrði ekki uppfyllt. Landsréttur taldi brotaþola hins vegar hafa þörf fyrir sérstaka aðstoð réttargæslumanns með vísan til vottorðs geðlæknis brotaþola.

Í L 29. mars. 2022 (165/2022) var ákært fyrir brot í nánu sambandi. Ákærða var gefið að sök að hafa ruðst inn á heimili barnsmóður sinnar og ráðist að henni þar sem hún hélt á tæplega mánaðargömlu barni þeirra, og kýlt hana ítrekað í andlitið uns hún datt fram fyrir sig með barnið í fanginu og sleppti þá tökum á barninu og ýtti því til á gólfinu undan árás ákærða sem hélt áfram að kýla og sparka í hana. Háttsemin var heimfærð undir 218. gr. b hgl. Krafist var skipunar réttar­gæslumann fyrir báða brotaþola, þ.e. móður og barn. Fallist var á skipun réttar­gæslu­manns fyrir barnið en héraðsdómur taldi ekki skilyrði fyrir skipun réttargæslumanns fyrir móðurina þar sem ekkert lægi fyrir í málinu um að hún hefði þörf fyrir sérstaka aðstoð réttargæslumanns og ekki yrði hjá því litið að hún nyti þegar aðstoðar lögmanns við að halda uppi bótakröfu sinni í málinu. Sú niður­staða var borin undir Landsrétt sem lagði fyrir héraðsdóm að skipa brotaþola réttargæslu­mann þar sem Landsréttur taldi brotaþola hafa þörf fyrir sérstaka aðstoð réttargæslu­manns í ljósi þess að meint brot væri alvarlegt og beindist að brotaþola þegar sem hún hélt á barnungri dóttur sinni. Þá væri ákvæði 218. gr. b sérstaklega ætlað að stuðla að aukinni vernd fyrir þá sem væru í veikri stöðu gagnvart þeim sem ofbeldinu beitti vegna náinna tengsla og hefðu þar af leiðandi þörf fyrir sérstaka aðstoð.[36] Í þessum úrskurði er veik staða þolenda ofbeldis í nánum samböndum viðurkennd og þar með þörf þeirra fyrir sérstaka aðstoð réttargæslumanns.

Það dregur þó úr vægi þessa úrskurðar sem fordæmis að einn dómari af þremur skilaði sératkvæði þar sem hann taldi ekki forsendur til þess að skipa brotaþola réttargæslumann þar sem hvorki lægju fyrir gögn sem vísuðu til þess að brotaþoli hefði þörf fyrir sérstaka aðstoð réttar­gæslu­­manns né gögn um að brotaþoli hefði orðið fyrir svo verulegu tjóni á líkama eða andlegu heilbrigði að skylt væri að tilnefna brotaþola réttar­gæslumann og vísaði þar til niðurstöðu Hæstaréttar 15. maí 2017 (292/2017) og Lands­réttar 24. janúar 2019 (49/2019) og benti jafnframt á að brotaþoli nyti þegar aðstoðar lög­manns við að fylgja bótakröfu sinni eftir.

Í þeim úrskurðum og dómum sem aðgengilegir eru í dómasafni er ekki að finna niðurstöðu þar sem fallist er á skipun réttargæslumanns með tilvísun til áðurgreinds úrskurðar Landsréttar frá 29. mars 2022. Höfundur hefur vísað til áðurgreinds fordæmis til rökstuðnings kröfu um skipun sem réttargæslumaður þolanda ofbeldis í nánu sambandi og tvívegis hefur verið fallist á skipun höfundar sem réttargæslumanns þolanda ofbeldis í nánu sambandi með vísan til áðurgreindrar niðurstöðu Landsréttar til stuðnings þeirrar ákvörðunar.[37] Kröfum höfundar fyrir hönd brotaþola um skipan réttargæslumanns hefur einnig verið hafnað með vísan til dómaframkvæmdar og þá verið litið framhjá niðurstöðu LRD165/2022 þrátt fyrir að um sé að ræða brot í nánu sambandi.[38] Þessir úrskurðir eru þó ekki aðgengilegir í dómasafni og því erfitt að meta hvert gildi áðurgreinds úrskurðar Landsréttar er í raun, þar sem svo fáir úrskurðir varðandi skipun réttargæslu­manns eru birtir.

Kröfum brotaþola um skipun réttargæslumanns er oft hafnað á grundvelli þess að ekki sé sýnt að brotaþoli hafi þörf fyrir sérstaka aðstoð réttargæslu­manns til að gæta hags­muna sinna. Ekki kemur fram í lögum hvað þarf til að þetta skilyrði sé uppfyllt, en í lögskýringargögnum er þó að finna vísbendingu um það. Í greinargerð með frumvarpi sem varð að lögum nr. 36/1999 segir um skilyrðið að ef önnur skilyrði fyrir tilnefningu réttargæslumanns séu uppfyllt verði að telja líklegt að brotaþoli þurfi á sérstakri aðstoð réttargæslumanns að halda, nema í undantekningartilvikum, s.s. ef óvíst er hver framdi brotið sem er til rannsóknar og þar af leiðandi ekki unnt að setja fram einkaréttarkröfu eða ef málsatvik eru tiltölulega einföld og brotaþoli er fær um að gæta hagsmuna sinna sjálfur, nema staða hans sé bág, t.d. vegna ungs aldurs eða bágrar félagslegrar stöðu, eða hann sérstaklega sljór eða skilningslítill.[39]

Af dómaframkvæmd má ráða að ef aðilar eru ekki nákomnir er algengast að kröfum um skipun réttargæslumann sé hafnað á þeim grundvelli að skilyrðið um verulegt tjón á líkamlegu eða andlegu heilbrigði sé ekki uppfyllt.[40] Ef aðilar eru nákomnir er hins vegar algengast að kröfu um skipun réttargæslumanns sé hafnað á þeim grundvelli að brotaþoli hafi ekki þörf fyrir sérstaka aðstoð réttargæslumanns,[41] sem er í raun í andstöðu við afstöðu löggjafans sem taldi að ef önnur skilyrði væru uppfyllt hefði brotaþoli alla jafna þörf fyrir sérstaka aðstoða réttargæslumanns. Þó má benda á að þessi afstaða löggjafans kemur fram í frumvarpi sem varð að lögum nr. 36/1999, þ.e. áður en skilyrðið um verulegt tjón á andlegu eða líkamlegu heilbrigði var undanþegið ef aðilar væru nákomn­ir. Það ætti þó ekki að hafa áhrif þar sem brot í nánu sambandi eru almennt til þess fallin að valda verulegu tjóni á andlegu eða líkamlegu heilbrigði þess sem fyrir verður, eins og var niðurstaða Hæstaréttar í H 2005:1795 (287/2005).

Eins og hefur komið fram er þröskuldurinn varðandi verulegt tjón á andlegu og líkam­legu heilbrigði mjög hár að undanskildu mati Hæstaréttar í H 10. febrúar 2014 (74/2014). Þá er ekki litið til aukins hlutverks réttargæslumanns í kjölfar gildistöku laga nr. 61/2022 eða þeirra réttinda brotaþola sem fara forgörðum ef brotaþoli nýtur ekki liðsinnis réttargæslu­manns eða lögmanns í málinu þegar metið er hvort brotaþoli hafi þörf fyrir sérstaka aðstoð réttargæslumanns. Því þó svo að réttindi brotaþola hafi verið aukin með lögum nr. 61/2022 var skilyrðum fyrir skipun réttargæslumanns við meðferð máls í héraði ekki breytt.

Í niðurstöðum dómstóla varðandi synjun um skipun réttargæslumanns er algengt að einnig sé vísað til þess að brotaþoli njóti þegar liðsinnis lögmanns við að fylgja eftir bótakröfu sinni í málinu.[42] Þessi rökstuðningur hefur ekki verið notaður einn og sér til þess að hafna kröfu brotaþola um skipun réttargæslumanns en honum hefur verið beitt samhliða öðrum rökum og þá einkum þeim að skilyrði um að brotaþoli hafi þörf fyrir sérstaka aðstoð réttargæslumanns sé ekki uppfyllt. Af því má draga þá ályktun að það dragi úr þörf brotaþola fyrir sérstaka aðstoð réttargæslumanns ef brotaþoli nýtur þegar liðsinnis lög­manns. Ef það er raunin þá skítur það skökku við þar sem sá lögmaður sem vísað er til að liðsinni brotaþola við að fylgja eftir bótakröfu er alla jafna lögmaðurinn sem var tilnefndur sem réttargæslu­maður fyrir brotaþola á rannsóknar­stigi og aðstoðaði við framsetningu bótakröfu. Störf réttargæslu­manns á rannsóknar­stigi felast aðeins í að setja fram bótakröfu fyrir hönd brotaþola, en ekki fylgja henni eftir fyrir dómi. Þannig að ef brotaþola er synjað um skipun réttargæslumanns fyrir dómstólum þá verður brotaþoli að ráða lögmann á eigin kostnað hvort sem það er sami lögmaður og sinnti réttargæslu fyrir brotaþola á rannsóknarstigi eða annar, nema brotaþoli treysti sér til þess að halda sjálfur uppi bótakröfu sinni fyrir dómi.

Það er ekki sjálfgefið að þó svo að einkaréttarkrafa liggi fyrir í málinu að brotaþoli njóti liðsinnis lögmanns við að halda uppi kröfu enda eru á þessu stigi máls aðstæður aðrar en í upphafi ef skipun réttargæslumanns er ekki samþykkt því að þá ber brotaþoli sjálfur ábyrgð á kostnaði við að halda uppi bótakröfunni fyrir dómi. Ef ákærði er sakfelldur og brotaþola dæmdar bætur er ákærði alla jafna dæmdur til þess að greiða kostnað við að halda kröfunni uppi fyrir dómi. Ef ákærði er hins vegar sýknaður eða brotaþola ekki dæmdar bætur þá ber brotaþoli sjálfur ábyrgðina á kostnaði við að halda kröfunni uppi fyrir dómi. Það er áhætta sem ekki allir brotaþolar eru tilbúnir til að taka, en staða brotaþola er oft bág og þeir hafa ekki allir efni á að taka slíka áhættu eða treysta sér til að halda kröfunni til streitu án aðstoðar lögmanns.

 

Samantekt og niðurstöður

 Aðstoð réttargæslumanns er mikilvæg réttarbót fyrir brotaþola. Það er áríðandi að þolend­um alvar­legra brota, eins og kynferðisbrota og brota í nánum samböndum, standi til boða aðstoð sérfræðings til að gæta hagsmuna þeirra vegna meðferðar máls er varðar brot gagnvart þeim, án þess að þolendur þurfi að bera af því kostnað. Það er mikilvægt réttlætismál í velferðarríki að þolendur fái þá aðstoð er þeir þurfa án endur­gjalds, enda ekki réttlætanlegt að þolendur alvarlegra brota beri kostnað af því að gæta hagsmuna sinna vegna brota gagnvart þeim.

Þessi aðstoð er í boði fyrir alla þolendur kynferðisbrota án beiðni ef þolandi er undir 18 ára aldri þegar rannsókn hefst og fyrir þolendur eldri en 18 ára ef þeir óska þess eða ef lögregla eða dómstólar telja brotaþola ekki hæfan til að gæta hagsmuna sinna sem skyldi. Rekja má þennan skýlausa rétt þolenda kynferðisbrota til aðstoðar réttargæslumanns til umsagnar lögmanna á Neyðarmóttöku vegna nauðgunar þar sem bent var á að erfitt væri að koma auga á þau tilvik þar sem þolandi kynferðisbrots skv. 194.-199. gr. hgl. hefði ekki orðið fyrir verulegu tjóni á líkama eða andlegu heilbrigði og þyrfti þar af leiðandi sérstaka aðstoð réttargæslumanns. Það sama má segja um þolendur ofbeldis í nánum sam­bönd­­um, þ.e. erfitt er að koma auga á þau tilvik þar sem þolandi endurtekins eða alvarlegs ofbeldis í nánu sambandi hefur ekki orðið fyrir verulegu tjóni á líkama eða andlegu heil­brigði og þarf af þeim sökum aðstoð réttargæslumanns. Staða þolenda endur­tekins eða alvar­legs ofbeldis í nánu sambandi er oftar en ekki mjög slæm. Þolandinn hefur í mörgum tilvikum búið við kerfis­bundið niðurbrot og er með brotna sjálfsmynd. Gerandi hefur jafnvel einangrað þolandann félagslega og fleira til að gera honum erfiðara um vik að standa á eigin fótum.

Þegar þolendur ofbeldis í nánum samböndum stíga fram og tilkynna að brotið hafi verið á þeim eru þeir oft ekki aðeins að tilkynna brotið heldur er gerandinn nákominn þeim og þeir eru jafnvel samhliða að slíta sambandi við gerandann. Þetta getur þýtt að þoland­inn eigi ekki í nein hús að venda þar sem hann getur ekki farið aftur heim til gerandans. Þolandinn þarf því mögulega að koma undir sig fótunum samhliða því að ganga í gegnum málsmeðferð í réttarvörslukerfinu sem eitt og sér getur verið mjög erfitt. Þá getur þolandi jafnframt þurft að þola áreiti, hótanir eða þrýsting frá geranda um að draga kæru til baka. Það er því mikið álag á þolendum. Þolendur ofbeldis í nánum samböndum eru í mjög veikri stöðu og hafa þörf fyrir sérstaka aðstoð réttargæslumanns eins og Hæstiréttur komst að niðurstöðu um í H 2005:1795 (287/2005) og Landsréttur gerði í L 29. mars. 2022 (165/2022) en klofnaði að vísu í afstöðu sinni.

Höfundur telur þó meiri hluta Landsréttar hafa komist að réttri niðurstöðu sem er í samræmi við það markmið að styrkja stöðu þolenda ofbeldis í nánum sambönd­um. Þá ber að athuga að í sératkvæðinu er vísað til þess að ekki liggi fyrir að brotaþoli hafi „orðið fyrir svo verulegu tjóni á líkama eða andlegu heilbrigði af völdum ætlaðs brots að skylt sé að tilnefna henni réttargæslumann“. Eins og farið hefur verið yfir þarf ekki að sýna fram á verulegt tjón á líkama eða andlegu heilbrigði ef um er að ræða brot í nánu sambandi. Þá er rétt að árétta að réttargæslu­maður er skipaður fyrir dómi en tilnefndur af hálfu lögreglu og því reyndi ekki á tilnefningu heldur skipun réttargæslu­manns. Höfundur telur jafnframt að tilvísun til niðurstöðu Hæstaréttar 15. maí 2017 (292/2017) eigi ekki við þar sem skipun réttargæslumanns var hafnað í því máli þar sem ekki var sýnt fram á verulegt tjón á líkamlegu eða andlegu heilbrigði og aðilar virtust ekki í nánu sambandi og sú niðurstaða er því ekki fordæmisgefandi í máli Landsréttar. Það er því ekki rétt að synja þolanda ofbeldis í nánu sambandi um skipun réttargæslumanns á þessum grundvelli. Erfiðara er að hrekja rök dómarans um synjun um skipun réttar­gæslu­manns á grundvelli þess að ekki væri sýnt að brotaþoli hefði þörf fyrir sérstaka aðstoð réttargæslu­manns og tilvísun dómarans til niðurstöðu Landsréttar 24. janúar 2019 (49/2019) þar sem stuðst er við dómafram­kvæmd. Höfundur telur dómstóla túlka of þröngt hvenær brotaþoli hafi þörf fyrir sérstaka aðstoð réttargæslu­manns.

Að óbreyttu telur höfundur litlar líkur á að þolendur ofbeldis í nánum sambönd­um fái skipaðan réttargæslumann í ljósi þessi að dómstólar hafa ítrekað hafnað beiðni þess efnis. Ætlun löggjafans um að bæta stöðu þolenda ofbeldis í nánum samböndum hefur því ekki náð fram að ganga nema að verulega takmörkuðu leyti. Dómstólar hafna að vísu ekki lengur kröfu um réttargæslumann vegna þess að brotaþoli hafi ekki orðið fyrir verulegu tjóni á líkamlegu eða andlegu heilbrigði heldur vegna þess að brotaþoli hafi ekki þörf fyrir sérstaka aðstoð réttargæslumanns. Því til stuðnings er algengt að vísað sé til þess að brotaþoli njóti þegar aðstoðar lögmanns við að halda uppi bótakröfu fyrir dómi. Með þessum rökum væri unnt að synja öllum um skipun réttargæslumanns þar sem allir ættu að geta fundið lögmann sér til aðstoðar.

Tímabært er að löggjafinn taki í taumana og tryggi réttindi umræddra þolenda til að njóta aðstoðar réttargæslumanns, ef þeir óska þess, líkt og gert var gagnvart þolend­um kyn­ferðis­brota með lögum nr. 36/1999. Það er brýnt að endurskoða þau skilyrði sem sett eru fyrir tilnefningu og skipun réttargæslumanns fyrir þolendur ofbeldis í nánum samböndum og tryggja þeim rétt til samræmis við rétt þolenda kynferðisbrota. Mikilvægt er að þessi viðkvæmi hópur fái nauðsynlega aðstoð við að gæta hagsmuna sinna, enda ótækt að ætla þeim að ráða lögmann á eigin kostnað í slíkum málum.

Hafa verður í huga að hlutverk réttargæslumanns er annað og meira en aðeins að setja fram einkaréttarkröfur, en með lögum nr. 61/2022 var staða þolenda bætt til muna, en hluti þeirra réttinda sem fengust með löggjöfinni eru háð því að brotaþoli hafi réttar­gæslu­mann eða lögmann sér til aðstoðar.

Þá er örðugt fyrir brotaþola að krefjast þess upp á eigin spýtur að þinghald sé lokað og að ákærði víki úr dómsal á meðan brotaþoli gefur skýrslu. Auk þess vita brotaþolar alla jafna ekki af þessum möguleika nema þeir njóti aðstoðar sérfræðings sem leiðbeinir þeim og upplýsir þá um réttindi sín. Enn fremur hafa brotaþolar ekki rétt á að hlýða á vitnisburð ákærða og gæti þótt ákveðið öryggi í því að vita að þeirra fulltrúi sé þá viðstaddur þá skýrslugjöf og gæti að hagsmunum þeirra.

Einnig er tilefni til þess að skerpa á lagaákvæðum varðandi skipun réttargæslu­manns fyrir börn undir 18 ára aldri, sem eru þolendur ofbeldis og þá einkum heimilis­ofbeldis, vegna veikrar stöðu þeirra. Barnaverndarstofa benti á þetta í umsögn sinni um frumvarp sem varð að lögum nr. 36/1999 og aftur í umsögn um frumvarp sem varð að lögum um meðferð sakamála nr. 88/2008 og lagði í báðum tilvikum til að skyldan til að tilnefna börnum réttargæslumann næði til allra ofbeldisbrota. Þessar tillögur Barna­verndar­stofu náðu ekki fram að ganga. Það er þó reynsla höfundar að þröskuldurinn fyrir skipun réttargæslumanns sé lægri þegar kemur að börnum en fullorðnum, sem má að nokkru leyti sjá í úrskurði héraðs­dóms í L 29. mars 2022 (165/2022) þar sem fallist var á skipun réttargæslumanns fyrir hönd barnsins en ekki móðurinnar þó svo að ofbeldið hefði aðallega beinst að móður­inni.

Höfundur telur nauðsynlegt að taka skilyrði fyrir tilnefningu og skipun réttargæslu­manns til gagngerrar endurskoðunar, einkum hvað varðar börn og þolendur ofbeldis í nánum samböndum. Þar sem réttindi þessara brotaþola til að fá réttar­gæslu­mann sér til aðstoðar eru ekki nægilega tryggð í lögum þrátt fyrir vilja löggjafans. Bregðast verður við því með því að skerpa á skilyrðunum í lögum og tryggja að þolendur ofbeldis í nánum sambönd­um fái þá aðstoð sem þeim er nauðsynleg og þeim var ætluð af löggjafanum.

 

Heimildaskrá

Eiríkur Tómasson. „Réttargæslumaður brotaþola“ í Guðrúnarbók, afmælisriti til heiðurs Guðrúnu Erlendsdóttur, (Hið íslenska bókmenntafélag 2006), bls. 179-200.

Kolbrún Sævarsdóttir. “Réttarstaða brotaþola” í Bifröst, rit Lagadeildar Háskólans á Bifröst, (Háskólinn á Bifröst 2006), bls. 329-363.

Páll Sigurðsson: Lögfræðiorðabók með skýringum. (Bókaútgáfan CODEX – Lagastofnun Háskóla Íslands 2008).

 

Lög og þingskjöl

Alþingistíðindi 1998-1999, 123. löggjafarþing. A.

Frumvarp til laga um breytingu á lögum um meðferð opinberra mála, nr. 19 26. mars 1991, með síðari breytingum, þingskjal 482.

Nefndarálit allsherjarnefndar, dags. 2. mars 1999, þingskjal 969.

Breytingartillaga, þingskjal 970.

Frumvarp til laga um breytingu á lögum um meðferð opinberra mála, nr. 19 26. mars 1991, með síðari breytingum, þingskjal 1026.

Frumvarp til laga um breytingu á lögum um meðferð opinberra mála, nr. 19 26. mars 1991, með síðari breytingum, þingskjal 1145.

Alþingistíðindi 2007-2008, 135. löggjafarþing. A.

Frumvarp til laga um meðferð sakamála, þingskjal 252.

Nefndarálit allsherjarnefndar, dags. 26. maí 2008, þingskjal 1153.

Breytingartillaga, þingskjal 1154.

Frumvarp til laga um meðferð sakamála, þingskjal 1287.

Alþingistíðindi, vefútgáfa.

Frumvarp til laga um breytingu á lögum um meðferð sakamála og lögum um fullnustu refsinga (bætt réttarstaða brotaþola, fatlaðs fólks og aðstandenda), 518. mál, þingskjal 741 á 152. löggjafarþingi 2021-2022. Vefútgáfa Alþingis­tíðinda, Sótt 27.5.2023 af https://www.althingi.is/altext/152/s/0741.html

Lög nr. 91/1991um meðferð opinberra mála. (brottfallin)

Lög nr. 36/1999 um breytingar á lögum um meðferð opinberra mála nr. 91/1991. (brottfallin)

Lög nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Lög nr. 61/2022 um breytingar á lögum um meðferð sakamála og lögum um fullnustu refsinga.

Umsögn lögmanna er starfa á Neyðarmóttöku vegna nauðgunar. (1999) Mál nr. 354 á 123. löggjafarþingi 1998-1999, dags. 16. febrúar 1999, dagbókarnúmer 1031. Sótt 27.5.2023 af https://www.althingi.is/altext/erindi/123/123-1031.pdf.

Umsögn Barnaverndarstofu. (1999) Mál nr. 354 á 123. löggjafarþingi 1998-1999, dags. 19. febrúar 1999, dagbókarnúmer 1033. Sótt 27.5.2023 af https://www.althingi.is/altext/erindi/123/123-1033.pdf

Umsögn Sifjar Konráðsdóttur hdl. (1999) Mál nr. 354 á 123. löggjafarþingi 1998-1999, dags. 19. febrúar 1999, dagbókarnúmer 1034. Sótt 27.5.2023 af https://www.althingi.is/altext/erindi/123/123-1034.pdf

Umsögn Barnaverndarstofu. (2008) Mál nr. 233 á 135. löggjafarþingi 2007-2008, dags. 22. janúar 2008, dagbókarnúmer 1241. Sótt 28.5.2023 af  https://www.althingi.is/altext/erindi/135/135-1241.pdf

 

Dómar

Dómur Hæstaréttar í máli nr. 287/2005, H 2005:1795.

Dómur Hæstaréttar í máli nr. 411/2010, sem kveðinn var upp 28. júní 2010.

Dómur Hæstaréttar í máli nr. 74/2014, sem kveðinn var upp 10. febrúar 2014.

Dómur Hæstaréttar í máli nr. 468/2014, sem kveðinn var upp 8. júlí 2014.

Dómur Hæstaréttar í máli nr. 68/2017, sem kveðinn var upp 7. febrúar 2017.

Dómur Hæstaréttar í máli nr. 227/2017, sem kveðinn var upp 10. apríl 2017.

Dómur Hæstaréttar í máli nr. 292/2017, sem kveðinn var upp 15. maí 2017.

Dómur Landsréttar í máli nr. 337/2018, sem kveðinn var upp 11. apríl 2018.

Dómur Landsréttar í máli nr. 49/2019, sem kveðinn var upp 24. janúar 2019.

Dómur Landsréttar í máli nr. 205/2019, sem kveðinn var upp 22. mars. 2019.

Dómur Landsréttar í máli nr. 377/2021, sem kveðinn var upp 10. júní 2021.

Dómur Landsréttar í máli nr. 165/2022, sem kveðinn var upp 29. mars 2022.

Dómur Landsréttar í máli nr. 792/2022, sem kveðinn var upp 16. desember 2022.

Úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra í máli nr. S-38/2022, sem kveðinn var upp 4. maí 2022.

Úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra í máli nr. S-65/2023, sem kveðinn var upp 15. apríl 2023.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness í máli nr. S-1240/2023, sem kveðinn var upp þann 29. September 2023.

 

Aftanmálsgreinar

[1] Páll Sigurðsson: Lögfræðiorðabók með skýringum, bls. 66.

[2] Frv. til laga um meðferð sakamála, þskj. 252. Alþtíð. 2007-2008, 135. lögþ. A: 1423-1424.

[3] Eiríkur Tómasson: „Réttargæslumaður brotaþola“ bls. 180.

[4] Lögin voru felld úr gildi með lögum um meðferð sakamála nr. 88/2008, sbr. 233. gr. laganna

[5] Eiríkur Tómasson: „Réttargæslumaður brotaþola“, bls. 179 og 181.

[6] Frv. til laga um meðferð sakamála, þskj. 252. Alþtíð. 2007-2008, 135. lögþ. A: 1398.

[7] Páll Sigurðsson: Lögfræðiorðabók með skýringum, bls. 344.

[8] Kolbrún Sævarsdóttir: „Réttarstaða brotaþola“ bls. 340

[9] Hér eftir aðeins vísað til laga nr. 61/2022.

[10] Eiríkur Tómasson: „Réttargæslumaður brotaþola“, bls. 192-195.

[11] Frv. til laga um breytingu á lögum um meðferð sakamála og lögum um fullnustu refsinga (bætt réttarstaða brotaþola, fatlaðs fólks og aðstandenda), 518. mál, þskj. 741 á 152. lögþ. 2021-2022.

[12] Eiríkur Tómasson: „Réttargæslumaður brotaþola“, bls. 179.

[13] Frv. til laga um breytingu á lögum um meðferð opinberra mála, nr. 19 26. mars 1991, með síðari breytingum, þskj. 482. Alþtíð. 1998-1999, 123. lögþ. A: 2309.

[14] Umsögn Sifjar Konráðsdóttur hdl. (1999) Mál nr. 354 á 123. lögþ. 1998-1999, dags. 19. febrúar 1999, dbnr. 1034. Slóð: https://www.althingi.is/altext/erindi/123/123-1034.pdf.

[15] Umsögn Neyðarmóttöku vegna nauðgunar. (1999) Mál nr. 354 á 123. lögþ. 1998-1999, dags. 16. febrúar 1999, dbnr. 1031. Sótt af https://www.althingi.is/altext/erindi/123/123-1031.pdf.

[16] Umsögn Barnaverndarstofu. (1999) Mál nr. 354 á 123. lögþ. 1998-1999, dags. 19. febrúar 1999, dbnr. 1033. Slóð: https://www.althingi.is/altext/erindi/123/123-1033.pdf.

[17] Nefndarálit allsherjarnefndar, dags. 2. mars 1999, þskj. 969. Alþtíð. 1998-1999, 123. lögþ. A: bls. 3905.

[18] Breytingartillaga, þingskjal 970. Alþtíð. 1998-1999, 123. lögþ. A: 3906.

[19] Frv. til laga um breytingu á lögum um meðferð opinberra mála, nr. 19 26. mars 1991, með síðari breytingum, þskj. 1026. Alþtíð. 1998-1999, 123. lögþ. A: 4064.

[20] Frv. til laga um breytingu á lögum um meðferð opinberra mála, nr. 19 26. mars 1991, með síðari breytingum, þskj. 1145. Alþtíð. 1998-1999, 123. lögþ. A: 4443.

[21] Frv. til laga um meðferð sakamála, þskj. 252. Alþtíð. 2007-2008, 135. lögþ. A: 1424.

[22] Umsögn Barnaverndarstofu. (2008) Mál nr. 233 á 135. lögþ. 2007-2008, dags. 22. janúar 2008, dbnr. 41. Slóð: https://www.althingi.is/altext/erindi/135/135-1241.pdf.

[23] Nefndarálit allsherjarnefndar, dags. 26. maí 2008, þskj. 1153. Alþtíð. 2007-2008, 135. lögþ. A: 6020.

[24] Breytingartillaga, þskj. 1154. Alþtíð. 2007-2008, 135. lögþ. A: 6026.

[25] Frv. til laga um meðferð sakamála, þskj. 1287. Alþtíð. 2007-2008, 135. lögþ. A: 6418.

[26] Frv. til laga um meðferð sakamála, þskj. 1287. Alþtíð. 2007-2008, 135. lögþ. A: 6509.

[27] 4. mgr. 41. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008.

[28] Frv. til laga um breytingu á lögum um meðferð sakamála og lögum um fullnustu refsinga (bætt réttarstaða brotaþola, fatlaðs fólks og aðstandenda), 518. mál, þskj. 741 á 152. lögþ. 2021-2022.

[29] Frv. til laga um breytingu á lögum um meðferð sakamála og lögum um fullnustu refsinga (bætt réttarstaða brotaþola, fatlaðs fólks og aðstandenda), 518. mál, þskj. 741 á 152. lögþ. 2021-2022.

[30] Sbr. t.d. H 9. desember 2004 (326/2004) og H 13. maí 2020 (11/2020).

[31] Með dómaframkvæmd er annars vegar átt við þá úrskurði sem gengið hafa um skipun réttargæslumanns og eru greinar­höfundi aðgengilegir í dómasafni og hins vegar úrskurði sem eru greinarhöfundi aðgengilegir vegna lögmannsstarfa höfundar. Það er þó staðreynd að ekki er alltaf úrskurðað sérstaklega um skipun og jafnvel þó svo að úrskurðað sé um skipun þá er aðeins brot af úrskurðunum birt í dómasafni. Þeir úrskurðir sem birtir eru teljast endurspegla ríkjandi dómaframkvæmd.

[32] Eiríkur Tómasson: „Réttargæslumaður brotaþola“, bls. 187.

[33] Almenn hegningarlög nr. 19/1940.

[34] Landsréttur vísaði jafnframt til H 15. maí 2017 (292/2017) til stuðnings niðurstöðu sinni, en þar hafði Hæsti­réttur staðfest úrskurð héraðsdóms um að hafna kröfu brotaþola um skipun réttargæslu­manns þar sem hvorki áverkar né staða brotaþola gæfi til kynna að brotaþoli hefði sérstaka þörf fyrir aðstoð réttargæslu­manns þrátt fyrir að líkams­árásin hefði verið alvarleg.

[35] Ákvæði 218. gr. b hafði ekki verið lögfest á þessum tíma, en í 3. mgr. 70. gr. hgl. er einnig vísað til nákominna, en það ákvæði tók gildi 2006 og vísar það skv. lögskýringargögnum til bæði núverandi og fyrrverandi maka.

[36] L 165/2022, 6. mgr.

[37] Í úrskurði héraðsdóms Norðurlands eystra í máli nr. S-38/2022, sem kveðinn var upp þann 4. maí 2022 og í úrskurði Héraðsdóms Reykjaness í máli nr. S-1240/2023, sem kveðinn var upp þann 29. september 2023, var fallist á skipun réttargæslumanns þolanda ofbeldis í nánu sambandi og vísað til Lrd. 165/2022 til stuðnings þeirri niðurstöðu.

[38] Í L 16. desember 2022 (792/2022) og í máli nr. S-65/2022, var skipun hafnað, en í báðum tilvikum voru brotaþolar nákomnir ákærða.

[39] Frv. til laga um breytingu á lögum um meðferð opinberra mála, nr. 19 26. mars 1991, með síðari breytingum, þskj. 482. Alþtíð. 1998-1999, 123. lögþ. A: 2309.

[40] Sbr. H 28. júní 2010 (411/2010), H 7. febrúar 2017 (68/2017), H 10. apríl 2017 (227/2017), H 15. maí 2017 (292/2017), L 11. apríl 2018 (337/2018) og L 22. mars. 2019 (205/2019).

[41] Sbr. H 8. júlí 2014 (468/2014), L 24. janúar 2019 (49/2019) og L 16. desember 2022 (792/2022).

[42] Sbr. H 8. júlí 2014 (468/2014), H 7. febrúar 2017 (68/2017), H 15. maí 2017 (292/2017), L 11. apríl 2018 (337/2018), L 24. janúar 2019 (49/2019), L22. mars. 2019 (205/2019) og L 16. desember 2022 (792/2022).